Ertu að leita að nýju verkefni fyrir heimspekihópana þína eða viltu prófa eitthvað nýtt í lífsleikni?
Neðst í Fréttabréfinu eru ábendingar um skemmtileg verkefni í Verkefnabanka Heimspekitorgsins

Fréttabréf heimspekikennara nr. 19, febrúar 2019

✦ ✦ ✦
Frá Félagi heimspekikennara

Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum. Tilgangur þess er m.a. að efla samstarf heimspekikennara og þeim sem starfa við æskulýðsstarf á öðrum vettvangi,  m.a. með því að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti um heimspekikennslu, að vinna að eflingu heimspekikennslu hérlendis og að hafa forgöngu um endurmenntunarnámskeið og aðra fræðslustarfsemi  eftir því sem við á.

Þann 9. janúar sl. hélt Guðrún Hólmgeirsdóttir fræðsluerindi á vegum Félags heimspekikennara um þrjár kennslubækur sínar í heimspeki. Viðburðurinn var afar vel sóttur og spunnust miklar umræður út frá framsögu Guðrúnar.

Annar viðburður ársins verður fræðsluerindi Jóns Thoroddsen sem kynnir kennslubók sína, Gagnrýni og gaman. Greint er frá viðburðinum neðar í þessu fréttabréfi. Hér má svo lesa grein eftir Jón úr Skólavörðunni 5. tbl. 3. árg. ágúst 2003, þar sem hann segir frá tilraunum sínum í heimspeki með nemendum í Grandaskóla veturinn 2002-2003.

Heimspekin á Kantinum
Um viðfangsefni í heimspekitímum

Röð fræðsluerinda Félags heimspekikennara heldur áfram. Næsti fyrirlesari Jón Thoroddsen, heimspekikennari í Laugalækjarskóla, sem kynnir bók sína Gagnrýni og gaman – samræður og spurningalist og aðferðir til að beita henni í kennslustofunni. Viðburðurinn, sem er opinn öllum, verður haldinn miðvikudagskvöldið 13. febrúar 2019, kl. 19. í Iðu Zimsen, Vesturgötu 2a, Reykjavík.

Jón hóf að móta aðferðafræði og heimspekikennslu sína í Grandaskóla árið 1997 en hefur frá árinu 2006 kennt á unglingastigi í Laugalækjarskóla. Þar hefur Jón gert tilraunir með lífsleiknikennslu á heimspekilegum nótum en auk þess haldið fjölmörg námskeið fyrir kennara á öðrum vettvangi. Fjölbreytt reynsla Jóns hefur að vonum haft áhrif á umræðuefni bókarinnar sem og störf hans við bókmenntaþýðingar. Gagnrýni og gaman – samræður og spurningalist er framlag höfundar til gagnrýnnar umræðu í skólastarfi og er afrakstur af heimspekilegum samræðum á þremur stigum grunnskóla.

Fræðsluerindið er ætlað öllum sem eru áhugasamir um heimspeki og heimspekilegar aðferðir í kennslu. Allir velkomnir. Aðgangur ókeypis.

Hér má sjá Facebook viðburðinn. Endilega merkið við og deilið sem víðast!

Níunda norræna ráðstefnan um heimspekilega ráðgjöf haldin í Helsinki, 3.-5. maí 2019

Norræn samtök um heimspekilega ráðgjöf, sem Félag heimspekikennara er aðili að, halda níundu ráðstefnu sína í. Helsinki, dagana 3.-5. maí 2019. Ráðstefnan sjálf er haldin 4.-5. maí, en á föstudeginum, 3. maí, er haldin vinnustofa undir handleiðslu Guro Hansen Helskog, undir yfirskriftinni The Dialogos approach to pedagogical philosophical practice. Þessi vinnustofa rúmar aðeins 16 þátttakendur og því er mikilvægt að skrá sig í tæka tíð ætli einhver að sækja ráðstefnuna heim.

Þema ráðstefnunnar er heimspekiiðkun og menntun (e. Philosophical Practice and Education), en hér má lesa lýsingu hennar á ensku, þar sem kallað er eftir ráðstefnuerindum og gefin nánari lýsing á lokuðu vinnustofunni: Call-for-Papers_9th-Nordic-Conference-on-Philosophical-Practice.pdf


✦ ✦ ✦
Úr Verkefnabanka Heimspekitorgsins


Epli, mörgæs, Eurovision

Það er gott að byrja kennslustundir á einhvers konar upphitun til að skerpa á hlustun nemenda og hjálpa ímyndunarafli þeirra af stað. Þetta verkefni er einfalt og þarfnast lítils undirbúnings en getur hrist skemmtilega upp í nemendum á öllum aldri. Lesa meira ›

Spurningaferningurinn

Hér er verkefni með  fjölbreyttu úrvali spurninga úr ævintýrinu um Gullbrá og birnina þrjá sem hægt er að nota til að þjálfa nemendur í að gera greinarmun á spurningunum. Eins fylgir með spurningaferningur Philips Cam sem hjálpar nemendum að skilja ólíkar tegundir spurninga og hlutverk þeirra. Lesa meira ›

Heimspekilegar spurningar

Stundum eiga börn erfitt með að átta sig á muninum á spurningum sem opna góða samræðu og annars konar spurningum. Ástæðan fyrir þessu er að þau hafa ekki dæmi til að bera saman og vita því ekki hvað á að forðast og eftir hverju er að sækjast. Þá geta staðreyndaspurningarnar komið í bunum. Hér er verkefni sem hjálpar þeim við að átta sig á muninum á þessum spurningum. Lesa meira ›

 

facebookhomepage

Afskráning af póstlista | 
Vefútgáfa fréttabréfsins

Já takk, skrá mig á póstlista fréttabréfsins! ☺

Merki Félags heimspekikennara: Ingimar Waage
Mynd í haus: Kristian Guttesen

Sent with Get a Newsletter